Hrafnastör

Hann böðlaðist áfram yfir móa og mýrar, stefnulaust. Sums staðar sökk hann í keldurnar, var orðinn útataður í rauðri leðjunni, en hann skeytti því engu, stikaði löngum skrefum yfir allt sem fyrir varð, steig allt í einu öðrum fæti niður úr holbakka og sat fastur en kraflaði sig óðar upp og æddi aftur af stað. Hvernig gat þetta gerst? Hún hafði bara tilkynnt honum þetta fyrirvaralaust. Og hann misst stjórn á sér. Ekki um leið. Fann ólguna krauma í sér og svo sló hann hana utan undir. Snöggt og fast með flötum lófanum. Augnaráðið á eftir. Hvasst og helkalt. Ekki það sem hún sagði: Það er gott að þú sýnir þitt rétta eðli. Einhvern tíma hefðu þessi orð sært hann. Nei, augnaráðið hafði þegar svipt hann öllu. Og hann gekk burt án þess að segja orð. Ekkert myndi aftur verða gott. Aldrei. Hann lét fallast á jörðina þar sem hann var kominn, hnipraði sig saman, hætti næstum að anda. Fann lífsorkuna seytla úr sér, fyrst úr limunum, síðan brjóstinu. Skyldi dauðinn vera svona? Hann var um það bil að loka augunum þegar hann sá það. Þetta litla strá sem þvælst hafði fyrir fótum hans frá því hann mundi til sín og alltaf talið svart. En nú þegar það var rétt við augað sá hann allt annan lit, óendanlega mjúkan og svalandi. Að eyrum hans barst lágt hvískur, sem smám saman breyttist í tónlist og í  huga hans kviknaði alltumlykjandi blómahaf, drifhvítt. Hvernig getur hvítt komið úr svörtu? hugsaði hann ósjálfrátt um leið og augu hans luktust.