Fjalldalafífill

Af hverju er fjalldalafífillinn þitt uppáhaldsblóm, afi? segir lítill drengur, og rýnir fast í andlit gamla mannsins. Þeir sitja á stórum steini í hlíðinni. Drengurinn fer aftur að skoða blómið sem hann er með í hendinni. Gamli maðurinn strýkur beinaberri hendinni yfir grámosann á steininum. Það er nú svolítil saga að segja frá því. Þegar ég var lítill drengur eins og þú var ég látinn sitja yfir ám hér inni í dalnum. Ég var reyndar tökubarn á prestssetrinu, var alltaf svangur, oftast sendur nestislítill af stað. Varstu hvað, afi? spyr drengurinn. Tökubarn. Mamma var dáin og pabbi var vinnumaður og gat ekki hugsað um okkur systkinin. Við vorum tekin inn á heimili hjá ókunnugu fólki. Og ég lenti þarna. Gamli maðurinn þagnar og horfir niður í dalinn, svo heldur hann áfram. Einu sinni þegar ég hafði verið sársoltinn heilan dag, gekk ég niður að læk og fékk mér vatn að drekka, fór svo allt í einu að gráta. Þegar ég var að þurrka framan úr mér heyrðist mér einhver ræskja sig. Ég leit í kringum mig en sá ekkert nema stóran brúsk af fjalldalafíflum. Eitt blómið hneigði höfuðið í áttina til mín og mælti þessi orð. Þú ert svangur og einmana núna en þú mátt treysta því að í fyllingu tímans muntu metta marga munna og fólkið þitt mun elska þig af öllu hjarta. Já, en afi, hrópar drengurinn. Þetta er alveg satt. Efri vör gamla mannsins byrjar að titra um leið og hann stendur á fætur, tekur í hönd drengsins og þeir halda af stað niður hlíðina.