Eyrarrós

Hann fann góðan stað á girðingunni, klofaði yfir og hélt upp melinn. Birkikjarrið hafði vaxið og breitt úr sér svo hann þurfti að þræða slóða í ótal krókum til þess að lenda ekki of langt frá ánni. Til þess var leikurinn gerður, að ganga upp með gilinu, skoða fossana, klettaveggina og mölina sem áin hafði hvítþvegið í áranna rás og skolað í bogadregnar eyrar. Og að finna hrafnshreiðrið aftur. Hann vissi ekki hvernig þetta var með hrafninn, hvort ein kynslóð tók við af annarri. Honum fannst það satt að segja mjög trúlegt ef þeir hefðu á annað borð fundið svona öruggan stað. Því öruggur var hann. Hann lenti í hinum mestu ógöngum þegar hann reyndi að komast þangað. Þá var hann ungur og hinn mesti glanni. Skyldi raunar ekkert í sér eftir á, þegar hann nuddaði á sér hrufluð hnén og áttaði sig á að hann hafði komið sér í lífshættu að nauðsynjalausu, anað áfram af ofurkappi bara til að næra ungæðislega mikilmennsku. Var svo allt í einu kominn í þrælslega sjálfheldu. Fallið gat verið banvænt ef honum skrikaði fótur. Honum hafði brugðið. Snarhætt við öll áform um að fara lengra. Var lengi að telja í sig kjark til að leggja af stað niður en vissi að hann mátti ekki draga það lengi, hann gæti fengið krampa af því að hanga svona utan í klettinum með alla vöðva spennta. Svo hann þvingaði sig til þess, lokaði augunum og fikraði sig af stað án þess að sjá nokkra fótfestu. Hann vissi aldrei hvernig hann fór að því, hlaut að hafa límt sig einhvern veginn við  klettinn eins og fluga á vegg. Eða fengið hjálp. Hvað vissi maður svo sem. Alla vega hafði hann lært sína lexíu og  þakkað sínum sæla. Kjarrið var farið að þynnast, gilið blasti við honum, djúpt og þröngt. Áin byltist blátær yfir grynningar eða á ljósum eyrum. Ein og ein birkihrísla óx út úr bergveggnum og lækjarsytra lak niður bergvegginn beint á móti. Hann mundi ekki hve langt upp með ánni hreiðrið var. Skuggarnir í gilinu urðu smám saman skarpari. Í fjarska sá hann bugðu á ánni og það rifjaðist upp fyrir honum að það var eitt af kennileitunum. Hann herti gönguna en það var lengra að beygjunni en hann hugði svo hann var sveittur og móður þegar hann loks tyllti sér á stein. Hvað var nú þetta? Hann stóð upp til að sjá betur niður í gilið, það var breiðara þarna en víðast hvar og þegar hann færði sig nærri gilbarminum teygði rauðbleiki flekkurinn úr sér á ljósgrárri malareyrinni. Hann greip andann á lofti, settist niður á brúninni, hallaði sér upp að flötum steini og drakk og drakk með augunum af þessari mynd sem blasti við honum. Ósnortin, tárhrein. Og hún kom upp í huga hans, áletrunin á legsteininum – fyrst deyr í haga rauðust rós.