Meyjarauga

-Veistu hvað þetta blóm heitir? spurði stúlkan.

-Hvaða blóm? Ég sé ekkert blóm.

-Það er af því þú ert svo háleitur, sagði hún og hló. Sestu hérna við hliðina á mér,

Hann settist niður og skimaði í kringum sig.

-Ég sé ekkert sem líkist blómi.

-Við verðum að leggjast endilöng, sagði hún og teygði úr sér í grasinu.

-Þú er að plata mig.

-Æ, gerðu bara eins og ég segi.

Hann lagðist á bakið og góndi upp í loftið.

-Heldurðu að það vaxi á himni?

-Slíttu það þá upp og sýndu mér.

-Það verður ekkert slitið eða rifið hérna,varla er þér ofviða að snúa þér við.

Hann andvarpaði. Augu þeirra mættust.

-Sérðu það nú?

-Kannski, sagði hann með semingi. Hvað heitir það?

-Meyjarauga, sagði hún mjúklega, nýútsprungið.